Vöktun á botni eldissvæða

Lífrænt álag á botn vegna sjókvíaeldis Háafells myndast vegna óétins fóðurs og saurs frá fiskunum. Með myndavélatækni nútímans er hægt að takmarka mjög það næringaríka fóður sem fer til spillis.
Saurinn hefur hátt hlutfall af nitri (N)og fosfór (P) eins og úrgangur landdýra sem gjarnan er nefndur lífrænn áburður vegna hagfellds efnainnihalds sem áburður. Öllu má þó ofgera, ef bóndi safnar heilu hlassi af skít á lítinn grasblett er ekki að vænta góðrar uppskeru þar. Sama má segja um fiskeldið, ef uppsöfnun undir kvíunum verður of mikil þrífast þar einungis einhæfar og gjarnan óæskilegar lífverur. Því eru eldissvæði helst valin á góðu dýpi þar sem er góður straumur til þess að dreifa úr úrganginum, eins og lífrænum áburði er dreift á tún. Til þess að fylgjast með að þessi áhrif undir kvíum verði ekki neikvæð verða rekstraraðilar að fylgja vöktunaráætlun þar sem þriðji aðili er fenginn til þess að vakta lífríkið undir kvíunum.

Fyrir áformað eldi vinnur Hafrannsóknarstofnun burðarþolsmat, nokkurs konar grunnmat, á því hve viðkomandi fjarðakerfi þolir mikið lífrænt álag. Áður en eldi er hafið innan viðkomandi fjarðarkerfis þarf að framkvæma sýnatökur sem notast er við til að meta ástandið á botninum (núll punktur). Sömuleiðis þarf að taka sýni þegar framleiðslan (lífrænt álag) er hvað mest á svæðinu og einnig eftir hvíld svæðis á milli eldisárganga. Ef að niðurstöður eru ekki ásættanlegar eftir hvíld svæðis gefur Umhverfisstofnun ekki heimild til nýrrar útsetningar fyrr en það nær nýju jafnvægi.
Okkur er mikið í mun að fylgjast vel með og lágmarka áhrif á nærumhverfið. Náttúrustofa Vestfjarða sér um vöktun á svæðum Háafells en um 25 mælingar og skýrslur liggja nú fyrir úr Ísafjarðardjúpi á eldissvæðum okkar. Til viðbótar er Hafró með eigin vöktun þar sem sýni eru tekin reglulega í fjarðarkerfunum.
Lykillinn að góðum vexti og heilbrigði eldisfiskanna er að hafa góða stjórn á lífrænu álagi. Sömuleiðis er okkur í mun að ganga vel um Ísafjarðardjúp en það iðar bókstaflega allt af lífi og er m.a. mikilvæg uppeldisstöð fyrir seiði margra fisktegunda og heimkynni innfjarðarrækju.